Handónýt innflytjendalöggjöf

Bring me your poorMikið hefur verið rætt í fjölmiðlum hér vestra um nýju innflytjendalöggjöfina sem Bushy er að reyna troða í gegn þessa dagana.  Það getur verið grátbroslegt að fylgjast með umræðunni því málið er mörgum mikið hitamál og sjónarmiðin býsna ólík eftir flokkslínum.  Samt eru allir sammála um að þessi nýja löggjöf er gjörsamlega gagnslaus til að leysa nokkurn vanda.

Repúblikanar vilja leyfa þessum 12 milljónum Mexíkana, sem flestir búa í Kalíforníu eða Texas að vera áfram í landinu, án þess þó að þeir öðlist nein réttindi.  Þeir vilja sem sagt óbreytt ástand.  Þeir mega halda áfram að tína vínber í Kalíforníu, vaska upp og þrífa klósett í Wal-Mart, en þeir skulu ekki fá mannsæmandi laun né heilbrigðisþjónustu og þeim er eins gott að forðast lögregluna og allar opinberar stofnanir, hvað sem tautar og raular ef þeir vilja fá fyrir guðs náð að búa áfram í þessu yndislega landi sem þrælar.  Flestir Repúblikanar vilja ekki að þessir óskráðu innflytjendur, sem þrátt fyrir allt borga í flestum tilfellum skatta af laununum sínum fái ríkisborgararétt, því það væri "amnesty" eða sakaruppgjöf fyrir að hafa brotið lög þegar þeir skriðu yfir eyðimörkina uppá líf og dauða.

BushyBush hefur samt náð að leggja þessa tillögu fram sem "málamiðlun" en hans eigin flokksmenn eru ósáttir því þeim finnst gert of vel við Mexíkanana.  Demókratar eru hins vegar ósáttir við tillöguna af praktískari og mannúðarlegri ástæðum því þeir sjá í gegnum falsið.

Í fyrsta lagi þá mun samkvæmt þessari tillögu fólk ekki fá úthlutað dvalar og atvinnuleyfi fyrr en að það hefur snúið aftur til síns heimalands og komið aftur inní landið í gegnum landamærastöð þar sem það þarf að framvísa pappírum, gangast undir bakrunns-tékk (fólk með sakaskrá fær ekki að koma aftur) og svo þarf það að borga heila 5000 dollara í sekt (rúmar 300 þúsund krónur).  Hvar á fólk sem vinnur við að þrífa klósettið í Wal-Mart og þarf að sjá fyrir stórri fjölskyldu og senda peninga heim til Mexíkó þar að auki, að taka 5000 dollara til að borga Bandaríkjastjórn þessa sekt?

Svo er ekki nóg með það heldur fær fólkið svo ríkisborgararéttinn ekki fyrr en eftir dúk og disk því þeirra pappírar og umsóknir verða sett neðst í bunkann og ekki afgreiddar fyrr en búið er að afgreiða allar aðrar umsóknir um Bandarískan ríkisborgararétt, en árlega berast yfir 200 þúsund umsóknir og ég á góðan vin, Íslenskan sem giftist Amerískri stelpu fyrir rúmum 3 árum og hann er ennþá týndur í kerfinu og ekki kominn með sinn ríkisborgararétt.  Talað er um að þeir Mexíkanar sem færu þessa nýju "löglegu" leið gætu átt von á að vera orðnir Bandarískir ríkisborgar eftir heil 13 ár!

AliensEinnig er gert ráð fyrir stórauknum fjárútlátum til landamæragæslu við Mexíkó og mun verða beitt enn meira harðræði í aðgerðum þar heldur en áður hefur tíðkast.  Árlega deyja hundruðir manna á leið sinni yfir Rio Grande og munu þessar aðgerðir sjálfsagt einungis gera þessu aumingja fólki ferðin ennþá hættulegri og erfiðari.  Það er ekki við innflytjendurnar að sakast.  Aðstæður þeirra í Mexíkó eru svö ömurlegar að ég held að það sé ekki hægt annað en að skilja þeirra ástæður, reyni maður að setja sig í þeirra spor á annað borð.

Ein aðal ástæðan fyrir hræðslu Repúblikana við því að þessar 12 milljónir Mexíkana fái sinn ríkisborgararétt, fyrir utan rasisma og Xenophobíu, er sú að mikill meirihluti þeirra væri mjög líklegur til að kjósa Demókrata, hefður þeir kosningarétt.  Þessi fjöldi nýrra kjósenda gæti því auðveldlega breytt valdahlutfalli stjórnmálanna hér gríðarlega (til hins betra).


mbl.is Bush reynir að sannfæra öldungadeildarþingmenn um ágæti innflytjendalöggjafar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Þetta er almennileg úttekt! Ég var augljóslæega allt of yfirborðslegur.Þetta er hins vegar mál sem Bandaríkjamenn þurfa að leysa og tillögur Bush eru ekki alveg út í hött.  Kv.

Baldur Kristjánsson, 13.6.2007 kl. 09:25

2 Smámynd: Róbert Björnsson

Það er gott að þetta mál sé til umræðu og að fólk sé sammála um að eitthvað verði að gera.  Bush má eiga það að hann hefur ekki farið eftir verstu tillögum harðlínumanna í sínum flokki í þessu málefni, enda hefur hann töluverða innsýn í vandamálið frá því hann var fylkisstjóri Texas.  Hins vegar er þessi tillaga ekki nærri nógu góð og það þarf að vinna betur í henni og breyta nokkrum megin-atriðum áður en hún verður afgreidd. 

Róbert Björnsson, 13.6.2007 kl. 18:25

3 identicon

Þú kemur alltaf með svo góðar útskýringar á öllum hlutum. Ert svo klár.

 Ég hafði nú ekkert pælt í innflytjendalögum Bandríkjamanna en þetta fær mann allavegana til að átta sig betur á málunum.

Ragnhildur (IP-tala skráð) 13.6.2007 kl. 20:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband