Delta/NWA...ekki nýjar fréttir

northwest-airlines-n544us_442516

Að gefnu tilefni endurbirti ég nú þessa færslu mína frá 21. febrúar s.l. 

Viðræður virðast á lokastigi um samruna tveggja af elstu og stærstu flugfélögum Bandaríkjanna, Delta og North West Airlines.  Búist er við tilkynningu á allra næstu dögum um hvort samningar náist en í augnablikinu virðist málið geta strandað á því hvort samkomulag náist við stéttarfélög flugmanna beggja flugfélagana.

Ef af samrunanum verður mun nýja flugfélagið verða stærsta flugfélag í heimi með um 85 þúsund starfsmenn, þar af um 12 þúsund flugmenn.  Í dag er Delta þriðja stærsta flugfélag í heiminum á eftir American og United en NWA er í fimmta sæti.  Mikið liggur á að ganga frá sameiningunni áður en ný stjórn kemst í Hvíta Húsið því samruninn verður að fá samþykki þingnefndar á vegum dómsmálaráðuneytisins sem úrsurðar um það hvort hann stenst samkeppnislög.  Menn telja að auðveldara reynist að koma málinu í gegn á meðan að "pro big business" Repúblikanar sitja við völd.

Það sem gerir samþykki samkeppnisyfirvalda líklegra er sú staðreynd að leiðarkerfi flugfélaganna tveggja skarast tiltölulega lítið og þar af leiðandi yrði ekki um einokun á leiðum að ræða.  Samt búast menn við að þessi aukna samþjöppun á markaðinum muni skila sér í hærri fargjöldum.  Markaðssvæði Delta hefur að mestu verið á austurströndinni og suðurríkjunum sem og yfir Atlantshafið til Evrópu á meðan leiðakerfi NWA hefur fókusað á norðanverð miðríkin, vesturströndina og Kyrrahafsmarkaðinn til Asíu.  Hið nýja markaðssvæði yrði því gríðarlega umfangsmikið.

Delta757Hið nýja félag myndi að öllum líkindum halda nafni Delta þar sem það er þekktara "brand name" og sömuleiðis yrðu höfuðstöðvar nýs fyrirtækis í Atlanta (heimavelli Delta) og forstjóri Delta, Richard Anderson (sem áður var raunar forstjóri NWA), yrði forstjóri hins nýja sameinaða félags.  Þrátt fyrir þetta leggja menn áherslu á að þetta sé ekki yfirtaka Delta á NWA heldur sameining.

Bæði félög hafa staðið illa fjárhagslega um langt skeið og er talið að sameining sé eina leiðin fyrir fyrirtækin til þess að snúa við blaðinu og skila hagstæðum rekstri í framtíðinni.  Bæði félögin hafa svarið við sárt enni að ekki muni koma til stórfelldra uppsagna í kjölfar samrunans en þó er ljóst að töluverðar tilfæringar eru líklegar í hagræðingarskyni. 

Hér í Minnesota hafa menn miklar áhyggjur af glötuðum störfum því höfuðstöðvar NWA eru staðsettar í Minneapolis og þar starfa nú yfir 1000 manns en samtals er starfsfólk NWA í Minnesota um 12 þúsund talsins og er fyrirtækið því einn stærsti vinnuveitandi í fylkinu. Fyrir utan starfsfólk í höfuðstöðvunum hafa flugvirkjar áhyggjur af því að viðhaldsstöð NWA í Minneapolis yrði lögð niður.  Tim Pawlenty ríkisstjóri (R) og Amy Klobuchar öldungardeildarþingmaður (D) standa í ströngu til þess að tryggja að sem fæst störf færist frá Minnesota og virðist vera búið að tryggja að Minneapolis flugvöllur verði áfram "Hub" fyrir hið nýja flugfélag og því verði áframhaldandi flugsamgöngur í Minnesota tryggðar.  Jim Oberstar formaður samgöngumálanefndar fulltrúaþingsins (Demókrati frá Minnesota) hefur þó laggst þungt gegn fyrirhugaðri samþjöppun og hefur miklar áhyggjur af því að hún þýði minna framboð, hærri fargjöld og færri störf.

A330HeavyMaintenance_NorthwestNúverandi "Hubbar" eða aðal-skiptiflugvellir NWA eru Minneapolis, Detroit og Memphis á meðan Atlanta, Cincinatti og JFK sinna því hlutverki hjá Delta.  Talað er um að mesti samdrátturinn muni eiga sér stað í Memphis og Cincinatti.  Sumir benda þó á að ef hið nýja flugfélag muni einbeita sér að stærri mörkuðum muni það opna aðgang lággjaldaflugfélaga að minni mörkuðunum og það komi til með að koma einhverjum til góða.

Það verður áhugavert að sjá hvað verður úr þessu en það hlýtur að verða hrein martröð hjá stjórnendum að sjá um tæknilega útfærslu sameiningarinnar.  Það er ekki lítið mál að sameina ólíkan starfsmanna "kúltúr" hjá svo stóru fyrirtæki, að ég tali nú ekki um tölvukerfi og annað.  Ef ég væri yfirmaður flugrekstrar eða viðhaldsmála hjá hinu nýja fyrirtæki ætti ég a.m.k. erfitt með svefn.  Eitt af því sem á eftir að vera áhyggjuefni er sú staðreynd að núverandi flugflotar Delta og NWA eru gjörólíkir sem þýðir mikinn viðbótarkostnað varðandi viðhald og þjálfun áhafna.  Delta flýgur einungis Boeing vélum (737-800, 757, 767 og 777) á meðan floti NWA er mjög blandaður (Airbus A320, A330, B757, B747 auk hátt í 90 gamalla DC-9 og MD-80 varíanta sem til stendur að skipta út á næstu misserum fyrir A320 eða Embraer 190.  Þá staðfesti NWA nýverið pöntun á 30 splunkunýjum 787 Dreamliners. 


mbl.is Rætt um sameiningu Delta og Northwest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Friðriksson

Það er ekki alveg rétt hjá þér að Delta hafi einungis Boeing vélar í flota sínum,þeir nota einhverja tugi MD-88 og nokkrar MD-90 vélar.

Delta hefur haft í gegnum árin vélar frá Boeing,McDonnell

Friðrik Friðriksson, 14.4.2008 kl. 02:55

2 Smámynd: Friðrik Friðriksson

Sorry ætlaði að bæta við,já McDonnell Douglas og svo Lockheed en aldrei frá Airbus!

En það verður fróðlegt að sjá hvernig framhaldið verður á þessum MEGA samruna.

Friðrik Friðriksson, 14.4.2008 kl. 02:59

3 Smámynd: Róbert Björnsson

Takk fyrir þessa leiðréttingu... rétt er það, Delta er víst enn með slatta af MD-88/90 í flotanum.  Gæða flugvélar!   

Já það verður fróðlegt að sjá hvernig þetta fer og hvaða áhrif þetta myndi hafa á hin flugfélögin og markaðinn í heild.  Mér þætti persónulega leiðinlegt að sjá á eftir NWA hverfa inní Delta.  Þetta minnir mig svolítið á þegar TWA (Trans World) var keypt af American og í raun lagt niður.  Þúsundir misstu vinnuna þegar TWA hubbinn í St. Louis var lagður niður...(og á sama tíma voru McDonnel Douglas verksmiðjurnar í St. Louis keyptar af Boeing og þeim lokað!).  Það vildi svo til að TWA var fyrsta ameríska flugfélagið sem ég flaug með og á meðan ég bjó í Oklahoma (2000-2001) flaug ég oft með þeim, þannig að ég sá eftir þeim.  Það væri skrítið að upplifa það aftur að "local" flugfélagið mitt (NWA) sem ég hef ferðast mest með undanfarin ár verði líka gleypt upp!  

Róbert Björnsson, 14.4.2008 kl. 04:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.