Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011

Hvaðan kemur Michele Bachmann?

Presenting-this-weeks-Newsweek-Michele-Bachmann-600x370
Það hefur verið hálf einkennilegt fyrir mig að fylgjast með Michele Bachmann skjótast upp á frægðar-sviðið undanfarin ár og maður er eiginlega kjaftstopp yfir árangri hennar og þeirri staðreynd að hún eigi jafnvel séns á að verða útnefnd forsetaframbjóðandi Repúblikana/te-poka-hyskisins á næsta ári.  Satt að segja er það súrrealísk og virkilega "scary" tilhugsun að þessi brjálæðingur og öfgamanneskja skuli hafa svona mikið fylgi meðal venjulegra kjósenda.  Það er í raun afar sorgleg staðreynd.

Ég hef fylgst með Michele lengur en flestir íslendingar, sökum þess að hún var eitt sinn þingmaðurinn "minn".  Jú, sko, ég stundaði háskólanám og bjó í hennar kjördæmi í Minnesota í rúm 6 ár.   Fyrst man ég eftir henni í local pólitík þegar hún var"State Senator"en svo komst hún á þingið í Washington fyrir "MN 6th Congressional District"...kjördæmið mitt.

mn6
Það má segja að MN 6th sé nokkurskonar "Kraginn" þeirra Minnesota-búa.  Kjördæmið nær utan um norður-úthverfi Minneapolis, frá Anoka sýslu og upp meðfram "the I-94 Corridor" til St. Cloud í norð-vestri.  Nú hefur Minnesota hingað til verið þekkt fyrir að vera mjög frjálslynt Demókrata-ríki sem gaf af sér eðal-krata á borð við Walter Mondale, Paul Wellstone og Al Franken.  En einhverra hluta vegna hefur MN 6th lengi verið helsta vígi Repúblikana í Minnesota.  

Eins og margir vita er stór hluti Minnesota-búa kominn af Skandínavískum og Þýskum ættum.  Skandínavarnir eru flestir Lútherstrúar á meðan þjóðverjarnir eru strangtrúaðir kaþólikkar.  Þar sem ég bjó, í St. Cloud, eru yfirgnæfandi meirihluti íbúanna afar íhaldssamir þýskir kaþólikkar.   Aðal-fjörið hjá þeim var að efna til mótmæla fyrir utan „Planned Parenthood“ og leggja konur í einelti sem hugðust fara í fóstureyðingu.

St. Cloud hefur því miður á sér óorð vegna rasisma.  Þangað til fyrir um 20 árum voru 95% íbúanna hvítir og kristnir og hefur borgin oft verið uppnefnd "White Cloud".  Síðan gerðist það að stór hópur Sómalskra flóttamanna var fluttur til St. Cloud og það hefur satt að segja gengið erfiðlega fyrir innfædda að taka á móti svörtum múslimum í samfélagið.  
Háskólinn minn - St. Cloud State University - á sér sömuleiðis langa sögu rasisma en fyrir um 15 árum síðan fóru nokkrir kennarar sem tilheyrðu minnihlutahópum í mál við skólann vegna mismununar og unnu málið.  Skólinn var skikkaður til þess að setja á stofn "diversity program" eða fjölmenningarstefnu sem m.a. gekk út á að laða til sín fleiri nemendur og kennara af ólíkum uppruna.  Liður í þessu var að fjölga erlendum nemendum og nú eru um 1,000 nemendur af 18,000 útlendingar, flestir frá asíu og afríku.  Þrátt fyrir þessa viðleitni hefur gengið á ýmsu og óhætt að segja að enn séu margir innfæddir ósáttir við þessa innrás fólks af "óæðri kynstofnum".  Í fyrra gengu til að mynda um ribbaldar sem krotuðu hakakrossa og haturs-orð á veggi á heimavistinni og á salernum skólans.  

bachmannholywar
Sennilega er það þessi ömurlegi trúar-ofsi sem gerði það að verkum að A) ég fékk algert ógeð á trúarbrögðum og B) Michele Bachmann átti greiða leið á toppinn í Minnesota.
Hún gekk í Oral Roberts University í Tulsa, Oklahoma - en það er kristilegur "háskóli" sem var stofnaður af frægum sjónvarps-prédikara.  Þar lærði hún allt um hefðbundin fjölskyldugildi og stöðu konunnar (hún heldur því fram að konur eigi að vera undirgefnar eiginmönnum sínum), sköpunarkenninguna og það hvernig jörðin er einungis 6000 ára gömul og að kölski hafi plantað risaeðlu-steingerfingum í jörðina til að villa um fyrir mannkyninu og fá það til að efast um Je$us Chri$t.  Hún heldur því fram að stjórnarskrá bandaríkjanna sé "heilagt plagg" frá Guði og að landsfeðurnir hafi ætlast til þess að bandaríkin yrðu "Christian Theocracy" en ekki "Secular Democracy".  Það held ég að Thomas Jefferson myndi snúa sér við í gröfinni ef hann heyrði þetta rugl!

Þess má svo geta að eiginmaður Michele, Marcus, er sér kapítuli útaf fyrir sig.  Hann veifar doktors-gráðu í sálfræði frá kristilegum háskóla en hefur ekki starfsréttindi sem slíkur í Minnesota.  Saman reka þau kristilega sálfræðistofu sem sérhæfir sig í af-hommun!  Þau hvetja foreldra samkynhneigðra unglinga til þess að bjarga börnum sínum frá glötun með því að borga þeim fyrir "leiðréttingar-meðferð".  Þess má geta að nýlega voru settar reglur í Anoka sýslu sem banna að minnast á samkynhneigð í ríkisreknum skólum.  Ennfremur má geta þess að á síðustu 2 árum hafa 7 samkynhneigðir unglingar í Anoka sýslu framið sjálfsmorð vegna eineltis.

Michele Bachmann kom nokkrum sinnum í heimsókn í skólann minn á meðan á kosningabaráttunni árið 2006 stóð, í boði College Republicans.  Ég sá hana samt aldrei því á sama tíma var ég að taka í spaðann á Senator Al Franken og Howard Dean f.v. ríkisstjóra Vermont, forsetaframbjóðanda og framkvæmdastjóra Demókrataflokksins.

Ég má til með að segja ykkur frá tveimur prófessoranna minna við flugdeild St. Cloud State.  Það má með sanni segja að þeir hafi verið eins gjörólíkir og hugsast getur.  Annar þeirra, Dr. Jeff Johnson er hvítur, sanntrúaður born-again evangelisti og "faculty sponsor" fyrir College Republicans.  Hann notaði hvert tækifæri sem honum gafst til að auglýsa kirkjuna sína og ungliðahreyfinguna.  Hann var látinn fara frá University of Nebraska eftir að hafa sent tölvupóst á allt starfsfólk og nemendur skólans til að mótmæla harkalega þeirri hugmynd að makar samkynhneigðra kennara fengju samskonar „benefits“ frá skólanum og aðrir.  Ekki veit ég hvort Dr. Jeff vissi að ég væri gay eða hvort það var tilviljun en fram að því að ég tók áfanga hjá honum hafði ég verið "straight A student".  Hjá honum var ég lægstur í bekknum með C í lokaeinkun.  Í dag er þessi maður orðinn deildarstjóri með æviráðningu við SCSU.  

Hinn var umsjónarkennari minn, Dr. Aceves.  Hann er af mexíkóskum ættum landbúnaðarverkafólks í Kalíforníu.  Sá fyrsti í fjölskyldunni sem gekk menntaveginn og braust út úr fátæktinni.  Hann gekk í flugherinn og flaug m.a. C5 Galaxy flutningavélum og KC-11 eldsneytisbyrgðavélum áður en hann útskrifaðist úr Embry-Riddle Aeronautical University – stærsta nafninu í flugbransanum.  Dr. Aceves er alger ljúflingur og okkur varð vel til vina.  Hann bauð mér í tvígang í "Thanksgiving Dinner" með fjölskyldu sinni á Þakkargjörðarhátíðinni og sennilega hef ég verið einn af hans uppáhalds-nemendum.  Eftir að ég hóf masters-námið bauð hann mér að leiðbeina nokkrum "undergraduates" í hönnunarsamkeppni á vegum bandarísku flugmálastjórnarinnar FAA og við hlutum þriðju verðlaun í harðri samkeppni við stóra og virta skóla.  Hann var hinsvegar ekki vinsæll meðal margra nemenda sem þóttu hann of kröfuharður...já og ekki hvítur, öfgatrúaður repúblikani.  
 
Eitt sinn sá ég að hann hafði sett límmiða á skrifstofu-hurðina sína sem á var regnbogafáni og orðin "LGBT Safe Zone".  Það var nefnilega ekkert sjálfgefið að samkynhneigðir nemendur upplifðu sig örugga í skólanum.  Þetta fór að sjálfsögðu mikið fyrir brjóstið á samkennurum hans en mér þótti mikið til koma.  Ég ákvað að segja honum frá því að ég væri samkynheigður og þakkaði honum fyrir stuðninginn.

Um það leiti sem ég var að útskrifast fékk hann stöðu deildarstjóra við City University of New York og sagði skilið við St. Cloud.  Ég heyrði í honum í vetur og þá sagðist hann hafa verið flæmdur frá SCSU og hann talaði um hversu andrúmsloftið hafi verið eitrað í SCSU.  Orðrétt sagði hann „fyrir þá sem ekki voru hvítir, straight, born-again Republican Evangelicals var lífið gert hreint helvíti.“  Ástæða þess að hann setti sig í samband við mig var sú að bjóða mér að gerast "mentor" eða trúnaðarmaður fyrir samkynheigða nemendur hans í New York sem eiga erfitt uppdráttar í flug-náminu og sem hann hafði áhyggjur af að myndu leggja drauma sína á hilluna sökum ótta við að eiga enga möguleika í hinum mjög svo"macho" flugbransa.  Mér þótti mjög vænt um þennan heiður og bauðst til að aðstoða hann á hvern veg sem ég gæti.

Þrátt fyrir allt á ég margar frábærar minningar frá SCSU og hér er að lokum smá myndband sem ég tók af skólanum mínum eftir að ég útskrifaðist...svona til að eiga lifandi minningar frá staðnum.



mbl.is „Enga samkynhneigða í herinn"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af meintum "reverse rasisma" Páls Óskars

Hin árlega gleðiganga Hinsegin daga er fagur vitnisburður um það besta í fari íslendinga. Við megum vera stolt og þakklát fyrir að búa í einu af frjálslyndustu samfélögum heims þar sem flestir eru sammála um gildi jafnréttis og mannréttinda minnihlutahópa. Þegar þriðjungur þjóðarinnar mætir með góða skapið og gleðina til þess að sýna samkynhneigðum stuðning, ást og staðfestingu á tilverurétti okkar – bærast ólýsanlegar tilfinningar í brjósti hvers homma og hverrar lesbíu. Gleymum því ekki hversu stutt er síðan tilvera okkar var sveipuð þöggun, skömm og ótta.

Einn er sá eðal-hommi sem ber sennilega meiri ábyrgð en flestir aðrir á því að fá þorra þjóðarinnar á okkar band á undanförnum árum. Með einlægni sinni, hreinskilni og persónutöfrum, hefur Páli Óskari tekist að koma við hjartað á íslendingum svo um munar. Hann var því vel að því kominn að hljóta mannréttinda-viðurkenningu Samtakanna 78 þetta árið. Eins og hann benti réttilega á í lok göngunnar á laugardaginn stendur Gay Pride á Íslandi orðið fyrir meira en „bara“ réttindabaráttu samkynhneigðra – þetta er orðin fjölskyldu-þjóðhátíð ALLRA íslendinga sem láta sig frjálslynd viðhorf og mannréttindi varða.

Ekki eru allir sáttir

Auðvitað fyrirfinnast enn einstaklingar sem láta Pál Óskar og Gay Pride fara í taugarnar á sér. Það kom því vart á óvart að einhverjir ákváðu að misskilja, oftúlka og snúa útúr ummælum Páls í Sjónvarpsfréttaviðtali um „hvíta gagnkynhneigða miðaldra karlmenn í jakkafötum, hægrisinnaða sem eiga peninga“ sem stundum eru með „biblíuna í annari hendi og byssuna í hinni“. Valinkunnir Mogga-bloggarar virtust taka þessi ummæli til sín og þóttu e.t.v. vegið að stöðu sinni og ímynd, þar á meðal Jón Magnússon hæstarréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður. Aðrir “usual suspects” eins og Jón Valur Jenson, þekktur öfgatrúarmaður og fordómapési, notfærði sér tækifærið og býsnaðist yfir meintum kostnaði Reykjavíkurborgar af gleðigöngunni.

a768_bm-viNú er það sem betur fer svo að flestir hvítir gagnkynhneigðir miðaldra karlmenn í jakkafötum – hvar sem þeir standa í pólitík og hvort sem þeir eiga peninga eða ekki – eru fordómalausir og sómakærir borgarar. Það eru ekki þeir sem létu ummæli Páls Óskars móðga sig – heldur þessar fáu risaeðlur sem eiga erfitt með að sleppa takinu af forréttinda stöðu sinni og íhaldssömum viðhorfum. Þessum mönnum sem líður illa í frjálslyndu og opnu samfélagi þar sem þeir fá ekki að drottna. Feminismi , jafnrétti og fjölmenning er eitur í þeirra beinum. Og þegar biblíur og byssur blandast í málið geta afleiðingarnar orðið skelfilegar eins og sannaðist nýverið í Noregi. Raunar er eftirtektarvert að þeir bloggarar sem helst hafa kvartað undan ummælum Páls Óskars eru flestir hinir sömu og kvörtuðu hæst yfir þeim „aðdróttunum“ að Anders Breivik væri „kristinn hægriöfgamaður“. Það voru nefnilega ekki „skoðanir“ hans sem voru brenglaðar heldur einungis verknaðurinn, að þeirra mati og það var óásættanlegt að sverta þeirra fínu og fullgildu lífsskoðanir vegna verknaðs eins „geðsjúklings“ sem af fullkominni tilviljun deildi skoðunum þeirra um „trúvillinga“, kynvillinga, útlendinga, kvenfólk og annað óæðra fólk.

Hrun feðraveldisins og sjálfsmynd karlmennskunnar

Ljóst er að með auknu jafnræði í samfélaginu hefur staða karlmannsins breyst. Þrátt fyrir að launamunur kynjanna á vinnumarkaði sé enn til staðar er það svo að karlar sitja ekki einir að valdastöðum í reykfylltum bakherberjum. Karlaklúbbarnir riða til falls. En til eru þeir karlar sem eiga erfitt með að aðlagast og finnast þeir jafnvel niðurlægðir. Við getum ekki og megum ekki horfa framhjá þeirri staðreynd að „karlmennskan“ er í vissri tilvistarkreppu.

Þróunin hefur verið á þá leið að konur eru í miklum meirihluta þeirra sem útskrifast úr háskólum á meðan karlar hafa dregist aftur úr í menntun. Þetta leiðir óhjákvæmilega til þess að konur munu koma til með að hafa hærri laun en karlar og verða aðal-fyrirvinnur heimilisins á sama tíma og atvinnuleysi eykst hraðast meðal ungra karlmanna. Þetta særir stolt þeirra og þeim finnst að þeim vegið. Reiðin brýst m.a. út í karl-rembu og and-femínisma.

Unga karlmenn skortir tilfinnanlega jákvæðar fyrirmyndir. Í grunnskólunum fyrirfinnast varla lengur karlkyns kennarar og of margir feður taka alltof lítinn þátt í uppeldi sona sinna. Þegar svo Agli Gillzenegger er hampað sem „fyrirmynd“ unglinga er orðið eitthvað verulega mikið að. Við verðum að gæta þess að hlúa betur að strákunum okkar, styrkja sjálfsmynd þeirra og hjálpa þeim út í lífið. Margir ungir karlmenn eiga um sárt að binda í dag og þeir tilheyra sko engum forréttindahópi þrátt fyrir að vera karlmenn. Þetta er sá hópur sem fær minnstan stuðning frá félags- og heilbrigðiskerfinu.

Atvinnuleysi og fátækt er hrikalegur bölvaldur sem nú ógnar heilli kynslóð. Við vitum að sá ótti, reiði, örvænting og tilgangsleysi sem herjar á ungt atvinnulaust fólk er hættuleg gróðrastíja fyrir öfga og hatur. Við verðum með öllum mætti að sameinast um að minnka atvinnuleysi og bæta félagsleg úrræði fyrir unga karlmenn áður en það er um seinan. Hættan er aðsteðjandi.

Elliheimili fyrir samkynhneigða

Í viðtali við DV talaði Páll Óskar um þörfina á sérstöku elliheimili fyrir samkynhneigða. Mörgum brá í brún og furðuðu sig á þeirri hugmynd, enda er markmiðið með réttindabaráttunni ekki aðskilnaður heldur samlögun. En við nánari athugun kemur í ljós að málið er flóknara en svo.

Viðtal við 77 ára gamlan homma birtist í dagskrárriti Hinsegin daga í ár. Þar lýsir hann því hvernig hann hafi notið þess að sækja kyrrðarstundir í Langholtskirkju í hádeginu þar sem hann naut samveru við aðra eldri borgara. Þetta breyttist allt eftir blaðaviðtal við hann í Morgunblaðinu árið 2007 þar sem hann opinberaði kynhneigð sína. Uppfrá þessu mætti hann gjörbreyttu viðmóti jafnaldra sinna í kirkjunni. Enginn tók undir þegar hann heilsaði né yrti á hann. Þá stóð fólk upp og færði sig þegar hann settist við borð eða kirkjubekk. Hann var flæmdur burt. Athugið að þetta var árið 2007...og ekki í neinum “sértrúarsöfnuði” heldur þjóðkirkju Íslands!

Hommar eru e.t.v. Í meiri hættu en aðrir á að einangrast í ellinni þar sem margir eiga ekki afkomendur, maka eða stórar fjölskyldur. Við vitum að hamingjusömustu gamalmennin eru þau sem bera gæfu til að njóta samvista við annað fólk sem það á samleið með. Sumir eldri borgarar stunda mikið félagslíf, dansæfingar og kvöldvökur og einhverjir eru jafnvel svo lánssamir að verða ástfangnir! Hvað er dásamlegra en það?

Hvers á einmanna homminn á Grund að gjalda?


mbl.is Mikil umræða um orð Páls Óskars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.