I throw my shoe at you!
21.12.2008 | 20:27
Eftir skó-árásina frægu á W. um daginn hefur þessi skemmtilega og saklausa aðferð við að láta í ljós vanvirðingu sína verið tekin upp á vestrænum slóðum. Skemmst er að minnast táknræns skókasts við Alþingishús íslendinga í gær. Það veit Allah að ég myndi kasta mínum skóm í Páfa-óbermið ef það yrði á vegi mínum...en endilega kíkið á þessa bráðfyndnu auglýsingu frá Zainab´s Discount Shoe Emporium.
![]() |
Páfi vottar Galileó virðingu sína |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Svívirðileg forgangsröðun
20.12.2008 | 21:26
Það eina sem hugsanlega getur bjargað þessari þjóð frá endanlegri glötun er mannauðurinn. Það var hárrétt hjá Þorgerði Katrínu að farsælla væri fyrir atvinnulaust fólk að fjárfesta í menntun og sjálfsuppbyggingu en að sitja aðgerðarlaust á bótum til langframa. Virkja verður nýsköpunarmátt þessara einstaklinga og gefa fólki von um bjartari tíð.
Hvað verður um þessa 1600 einstaklinga sem sóttu um nám við HÍ nú þegar skólinn er knúinn til að skera niður um milljarð? Einhverjir fara örugglega úr landi við fyrsta tækifæri og af hverju í ósköpunum ættu þeir að snúa aftur?
Hvernig er það réttlætanlegt að á sama tíma og niðurskurðarhnífurinn er blóðugur í mennta- og heilbrigðiskerfinu sé nánast ekkert skorið niður til útgjalda til ríkis-kirkjunnar? Rúmir 5 milljarðar á ári fara í að halda uppi þessu gjörsamlega gagnslausa og úrelda apparati sem engu skilar til baka til þjóðarbúsins. Það á að fjarlægja þetta krabbamein af ríkisspenanum án tafar og ríkið á að taka til sín og selja allar eigur Þjóðkirkjunnar og verja þeim fjármunum til uppbyggingar þjóðarinnar. Trúaðir hljóta að geta borgað úr eigin vasa fyrir þetta hobbý sitt eða beðið til síns guðs í einrúmi. Það er ólíðandi forgangsröðun að skera niður í menntamálum á sama tíma og útgjöld til kirkjunnar aukast einungis ef eitthvað er.
Fullur aðskilnaður rikis og kirkju er réttlætismál og nú verður að taka á þessu bulli af alvöru!
Fyrir mína parta þá er það minn draumur að geta snúið til baka til Íslands einn góðan veðurdag og boðið fram mína krafta til þess að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag. Það er þó ljóst að áður en til þess kemur verða að fara fram margar grundvallar-breytingar á gildum landsmanna. Fyrr sný ég ekki aftur ótilneyddur.
![]() |
Ekki hægt að taka inn nýnema |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Husky Pride!
18.12.2008 | 22:07
Endilega smellið á þennan link og kíkið á hátíðarkveðju frá skólanum mínum.
Þar sem ennþá eru 7-12 vikur í atvinnuleyfið er ég að vinna í því að bæta við mig tveimur kúrsum í kennslufræðum eftir áramót (Technology Education) og hugsanlega einum í hagfræði, auk þess sem ég vonast til að fá hálft starf í skólanum sem Graduate Assistant. Ennfremur hefur einn prófessoranna minna beðið mig um að skrifa með sér fræðigrein til birtingar í "Akademískum Journal" og er ég nokkuð spenntur fyrir því. Það þýðir víst lítið annað en að þrauka áfram...ekki að miklu að snúa á íslandi því miður og því um að gera að hafa nóg fyrir stafni á meðan biðin endaulausa eftir atvinnuleyfinu heldur áfram.
Svona leit skólinn minn út í sumar:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bobby Fischer undanþága?
17.12.2008 | 17:59
Nú finnst mér það hæpið að bæta sérstöku íslensku-prófi ofan á þann þegar mjög langa og flókna feril sem venjulegir umsækjendur um ríkisborgararétt þurfa að ganga í gegnum. Hér í Bandaríkjunum þurfa umsækjendur ekki að gangast undir sérstakt ensku-próf (enda er ekkert opinbert tungumál í USA) - en á hinn bógin þurfa þeir að geta svarað spurningum um sögu landsins og stjórnkerfi (væntanlega á ensku). Það má ekki gleyma því að íslenskan er flóknara og erfiðara tungumál að læra heldur en enska og það verður að gefa fólki tíma og aðstoð við að læra íslenskuna.
En svo er spurningin...hvað ef þú ert misskilinn skáksnillingur í Japönsku fangelsi, kúguð handboltastjarna frá Kúbu, forsetafrú eða tengdadóttir Jónínu Bjartmarz? Verður þá bara hægt að sleppa þessu prófi, ef um VIP umsækjendur er að ræða? Eða er þetta bara enn ein sían fyrir "óæskilega" innflytjendur?
![]() |
Íslenskupróf skilyrði fyrir ríkisborgararétti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Brrrr...31° gaddur
16.12.2008 | 08:11
Það fer lítið fyrir Global Warming hér í Minnesota þessa dagana. Nú í kvöld var kuldamet desembermánaðar að falla hér í St. Cloud og svo er rok í þokkabót þannig að með vindkælingu erum við að tala um -40°...hvort heldur á Celsíus eða Farenheit. Svo spyr maður sig aftur...af hverju í ósköpunum valdi ég ekki Flórída?
En þrátt fyrir að nefhár frjósi og mann verki í lungun við hvern andadrátt...já og þótt bíllinn fari ekki í gang...þá er alltaf gaman af þessum nágrönnum þegar þeir komast í jólaskap.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Evrópa
12.12.2008 | 06:57
Undanfarin ár hef ég verið á þeirri skoðun að hagsmunum Íslands væri best borgið innan Evrópusambandsins. Í ljósi atburða síðustu mánuða hef ég verið að endurskoða þá afstöðu mína og hef enn ekki komist að endanlegri niðurstöðu. Það hefði átt að sækja um aðild fyrir 5-10 árum síðan...þá væri staðan kannski önnur í dag. Í dag eru forsendurnar aðrar og verri og mætti vel nota máltækið "you´re damned if you do, you´re damned if you don´t". Það virðast þó fáir aðrir kostir raunhæfir í augnablikinu.
Ein rökin sem Evrópusinnar beita stundum, málstað sínum til framdráttar, er sú að benda á að við Íslendingar "eigum svo mikið sameiginlegt" með Evrópu-þjóðunum. Sérstaklega varðandi menningu og jafnvel sögu. Jafnframt er oft bent á hvað við eigum ósköp lítið sameiginlegt með lág-menningu Norður Ameríku og jafnvel kvartað sáran yfir því að RúV skuli vera að demba þessum ósóma yfir þjóðina á formi Bandarísks og Bresks sjónvarpsefnis...sem að sumra mati er ekki "nógu kúltíverað". Íslendingar eiga að horfa á meira af Skandínavísku sósjal-drama og Ítölskum og Frönskum sápuóperum.
Nú verð ég að viðurkenna að fyrir utan stutta heimsókn til London hef ég ekki komið til Evrópu í 12 ár. Það skrýtna er að mig er lítið farið að langa þangað aftur. Kallið mig Kanamellu og hvað sem þið viljið...en kíkið á eftirfarandi nýlegar svipmyndir frá þessari æðislegu Evrópu...sem við Íslendingar eigum svo svakalega margt sameiginlegt með.
Nennti ekki að birta myndir frá óeyrðunum á Grikklandi, né eymdinni í Belgíu og Eystrasaltslöndunum og brjálæðinu á Balkanskaganum.
Vonandi hef ég eitthvað skakka mynd af þróun mála í þessari heimsálfu ... en myndirnar tala sínu máli.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Sagan af Sir Rupert, the Gay Knight
9.12.2008 | 21:14
Hugljúf saga sem verið er að koma á bók og í alla betri leikskóla! Allt hluti af plotti guðlausra líberalista og hómósexjúalista til að eyðileggja "the moral fiber of America".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
ímyndarvandi íslenskra námsmanna erlendis
9.12.2008 | 19:27
Hinn ágæti mennta-elítu heimsborgari og snillingur Frímann Gunnarsson er mættur á bloggið og ég má til með að benda fólki á þessa mögnuðu hugmynd hans um hvernig hægt væri að bæta samskipti okkar við séntilmennin á Englandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Frábær gestur frá Íslandi
5.12.2008 | 20:41
Þjóðræknisfélag Íslendinga í Vesturheimi (Icelandic League of North America) stóð fyrir heimsókn Yrsu Sigurðardóttur verkfræðings og rithöfundar í skólann minn í dag. Yrsa hélt áhugaverðan fyrirlestur um jarðvarma og fallvatnsorkunýtingu á Íslandi fyrir nemendur í minni deild (Environmental and Technological Studies) og vakti mikla lukku hjá samnemendum mínum og prófessorum.
Mér gafst kostur á að snæða hádegisverð með Yrsu, ásamt Claire Eckley forseta Icelandic-American Association of Minnesota, Dr. Erni Böðvarssyni prófessor í hagfræði hér við St. Cloud State og Dr. Balsi Kasi umsjónar-prófessornum mínum í ETS deildinni.
Yrsa áritaði svo skáldsögur sínar í bókabúðinni en hún er á góðri leið með að verða mjög stórt nafn í glæpasagnaheiminum og hafa bækur hennar verið þýddar á 33 tungumálum. Þar fyrir utan hefur hún starfað sem verkefnastjóri á Kárahnjúkum og við Jarðvarmavirkjanir. Sannarlega fjölhæf og mögnuð kona sem var gaman að fá að hitta og ég hlakka til að lesa bækurnar hennar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Trúleysinginn ég og leitin að hinu góða
1.12.2008 | 19:40
Stundum er erfitt að vera trúleysingi. Það kemur fyrir að ég öfundi þá sem geta fundið huggun í trú sinni þegar erfiðleikar steðja að. Sem betur fer finn ég mína huggun og innri frið á annan hátt og lifi síður en svo í einhverju svartnætti þrátt fyrir að trúa ekki á yfirnáttúruleg fyrirbæri eða æðri máttarvöld. Þess í stað trúi ég á okkar eigin mátt, náttúruöflin, lýðræðið, rökvísi, réttlæti og kærleik.
Hið góða býr innra með okkur, manneskjunum. Það kemur ekki að ofan, heldur að innan. Samkennd, kærleikur og ást fjölskyldu okkar og vina, er það sem gefur okkur huggun og hugarró á þessum síðustu og verstu.
Undanfarin ár hef ég af sumum verið talinn "herskár trúleysingi", sem samkvæmt skilgreiningunni, hef barist gegn trúarbrögðum í ræðu og riti og reynt að fá trúað fólk til að sjá "villu síns vegar" og fá það til að vakna upp af vitleysunni og sjá veruleikann eins og hann blasir við mér. Með öðrum orðum, hef ég tekið þátt í að stunda eins konar "trúboð" trúleysingjans. Rétt eins og aðrir trúboðar hef ég sinnt þessu hlutverki af mestu umhyggju, velvild og með von um bætt samfélag samkvæmt mínum skilningi.
Stundum hefur það þó komið fyrir að ég hef sært tilfinningar þeirra trúuðu vina minna sem sjá heiminn í öðru ljósi en ég. Það hefur komið fyrir, að sökum þeirrar óbeitar sem ég hef gagnvart ákveðnum þáttum skipulagðra trúarbragða , að mér hafi yfirsést sú staðreynd að sumt sem tilheyrir trúarbrögðum er í sjálfu sér af hinu góða og að trú getur veitt mörgu góðu fólki "inspírasjón" til góðra verka. Trúarbrögð eru ekki eins svarthvít og þau hafa stundum birst mér.
Þegar ég var barn og unglingur var ég tiltölulega trúaður. Ekki meira en gengur og gerist með íslensk börn, en móðir mín reyndi að ala mig upp í góðum siðum og gildum. Við vorum ekki kirkjurækin og ég las ekki biblíuna fyrr en ég komst á fullorðinsaldur (las þá Gamla testamentið og varð fyrir skelfilegu áfalli ). Engu að síður leið mér alltaf vel þegar ég slysaðist í kirkju og fann þar oftast fyrir friði, hlýju og kærleika. Sömuleiðis man ég eftir að hafa beðið til Guðs þegar ég fann fyrir ótta, kvíða og einmannaleika og ég man að trúin á að ég væri ekki einn í heiminum veitti mér mikla hugarró.
Smám saman fjaraði þó undan trúnni með aldrinum, sérstaklega eftir að ég fór að hugsa um hversu fáránleg og óraunsæ hugmyndin um Guð raunverulega er. Einnig fannst mér Guð endanlega hafa yfirgefið mig þegar móðri mín veiktist af ólæknandi krabbameini og lést eftir hörmulega erfið veikindi. Satt að segja fann ég þá fyrir biturð og reiði út í þann Guð sem ég taldi mig hafa þekkt.
Ofan á þetta kynntist ég hræsni og öfgum "sanntrúaðra" eftir að ég fluttist hingað til Bandaríkjanna. Blind bókstafstrú, hvaða nafni sem hún nefnist, er að mínu mati eitt hið skelfilegasta mein sem herjar á mannkynið. Hatur, ótti, dogma, græðgi, fals og lygi. Þannig sé ég flest skipulögð trúarbrögð í dag. Boðskapur margra Kristinna söfnuða (t.d. kaþólskra og hvítasunnusöfnuða) virðast hafa snúist upp í algera andhverfu þess boðskapar sem ég las eitt sinn í Nýja testamentinu.
Hitt hef ég þó líka verið að sjá að undanförnu, mér til mikillar gleði, að til er gott fólk sem boðar einfaldlega trú á hið góða í okkur sjálfum. Til eru prestar, þ.m.t. innan Þjóðkirkjunnar, svo sem hjónin Bjarni Karlsson og Jóna Hrönn Bolladóttir sem raunverulega boða einungis sannan náungakærleik og samkennd. Þau taka það besta úr Nýja testamentinu og skilja eftir hryllingssögur hins morðóða og valdasjúka guðs gyðinganna.
Þrátt fyrir að ég sé og verði áfram hamingjusamlega trúlaus (trúfrjáls), þá lýsi ég því hér með yfir að ég mun reyna að taka trúaða í aukna sátt og sýna þeim meiri skilning en ég hef gert í framtíðinni. "Why can´t we all just...get along?"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Vídeó frá flakkinu til Washington
30.11.2008 | 19:51
Þá erum við félagarnir (við Alan Smithee myndatökumaður a.k.a. Skarphéðinn góðvinur minn og nágranni ) komnir heim í sveitina eftir vel heppnað road-trip til höfuðborgarinnar og samtals 38 klukkustundir á keyrslu (ca. 2500 mílur). Auðvitað þýddi ekkert annað en klippa strax saman smá brot af ferðalaginu og skella á youtube, for your viewing pleasure. (Ath. Mæli eindregið með að þið tvísmellið á myndböndin og farið inn á youtube síðuna og veljið "Watch in High Quality")
Og svona leit bíltúrinn út (38 tímar skornir niður í 10 mínútur) með undirleik Blues Brothers.
Og að lokum svipmyndir frá Smithsonian National Air & Space Museum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
On the Road Again
28.11.2008 | 14:46
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Washington DC
27.11.2008 | 03:43
Það gengur allt samkvæmt áætlun hér í Washington. Maður getur varla staðið í lappirnar lengur sökum harðsperra, en ætli manni hafi nú nokkuð veitt af hreyfingunni. Var búinn að lofa nokkrum myndum og get ekki svikist undan því. Takið eftir sviðinu sem verið er að reysa á tröppum þinghússins en þar mum Obama verða svarinn inn þann 20. janúar næstkomandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mættur til D.C.
26.11.2008 | 00:34
Þá er maður kominn til höfuðborgar "hins frjálsa heims" þar sem kennir ýmissa grasa á hverju götuhorni. Gisti rétt við Dupont Circle, um það bil átta blocks norður af Hvíta Húsinu. Rakst reyndar á W. sjálfan núna áðan...eða a.m.k. einhvern í familíunni...en ég var í mesta sakleysi að ganga framhjá hliðinu á 1600 Pennsylvania Avenue þegar út kemur bílalest all svakaleg...10 mótorhjólalöggur, þrír svartir Cadillac limmar og þrír svartir Suburban jeppar á fleygiferð. Hér er alls staðar verið að selja varning tengdan Obama, svo sem boli, húfur og þess háttar...en ég hef hvergi séð bol með mynd af aumingja Bush...það er sjálfsagt ekki tekið út með sældinni að vera Lame Duck.
Svo er það sendiráðið á morgun og svo á að kíkja á Capitolið og Supreme Court...já og Smithsonian söfnin...og allt. Dembi kannski inn einhverjum myndum annað kvöld.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Úti að aka - yfir hálfa Ameríku and back
23.11.2008 | 01:50
Þakkargjörðar kalkúnninn verður étinn í Washington D.C. þetta árið. Vegna vegabréfs-vesens neyðist ég til að gera mér ferð í íslenska sendiráðið í höfuðstaðnum. Þar sem flugvélar eru allar meira og minna uppbókaðar á þessum tíma og fargjöld himinhá var ákveðið að keyra bara, enda bensínið komið niður í $1.69. Aðra eins vitleysu hefur maður svosem lagt út í en vegalengdin frá Minnesota til D.C. og aftur til baka er um 3760 kílómetrar...sem samsvarar um þremur hringjum í kringum Ísland! Planið er að ferðalagið taki eina viku með 3-4 daga stoppi í Washington. Piece of cake.
Ef ekkert heyrist frá mér næstu daga þá sit ég sennilega fastur í snjóskafli einhversstaðar í Appalachia fjöllunum...en veðurspáin er freker leiðinleg fyrir þann hluta leiðarinnar...heavy "Lake Effect" snjókoma frá Ohio og í gegnum Pennsylvaniu...þannig að þetta gæti orðið áhugavert ævintýri.
Svo skemmtilega vill til að í síðasta mánuði voru liðin nákvæmlega 10 ár frá minni fyrstu og einu heimsókn til Washington D.C. og var það sömuleiðis fyrsta ferð mín til Bandaríkjanna. Það verður áhugavert að sjá hvort eitthvað hafi breyst þar í forsetatíð W. Ætli ég noti ekki tækifærið og kíki á nokkur söfn og minnisvarða fyrst maður verður þarna á annað borð.
Kannski læt ég vita af mér annað slagið þegar ég kemst í netsamband á leiðinni en ég legg í hann snemma í fyrramálið og ætla mér keyra sem leið liggur í gegnum Wisconsin og Illinois, framhjá Chicago og áætla að gista í South Bend, Indiana fyrstu nóttina. Svo held ég áfram í gegnum Ohio með viðkomu í Cleveland og þaðan inn í Pennsylvaniu og stefni á að gista í Pittsburgh. Þaðan er svo ekki nema 4-5 tíma keyrsla inn í Maryland og til D.C. þar sem ég vonast til að vera mættur seinni partinn á þriðjudaginn.
Wish me luck!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)