Wangari Maathai
1.2.2007 | 21:45
Annar góður gestur hélt hér fyrirlestur fyrir troðfullum sal í gærkvöldi. Þar var mætt Dr. Wangari Maathai, Friðar-Nóbelsverðlaunahafi frá Kenýa.
Dr. Maathai er líffræðingur sem hefur barist ötullega fyrir náttúruvernd, mannréttindum, lýðræði og friði í Afríku. Hún var fyrst kvenna frá austur og mið Afríku til að öðlast PhD gráðu og sömuleiðis fyrsta konan frá Afríku til að öðlast Nóbelsverðlaun (árið 2004).Hún hélt frábæra ræðu um áhrif náttúruverndar og vistvænnar náttúruauðlindastjórnunar á þróun lýðræðis og friðar í heiminum. Boðskapur hennar var að hvert og eitt okkar getur lagt lóð á vogarskálirnar þegar kemur að náttúruvernd og lýðræði. Þrátt fyrir að stundum virðist fjöllin ókleif megum við ekki leyfa okkur þann munað að gefast upp þótt á móti blási.
Í Kenýa barðist Dr. Maathai við einræðisherra og alþjóðleg stórfyrirtæki sem græddu á tá og fingri á skógarhöggi í regnskógunum með þeim afleiðingum að heilu vistkerfin eyðilöggðust og vatnsból og ár menguðust. Hún hjálpaði líka allslausum konum að mennta sig og brjótast undan oki karlaveldisins.
Íslendingar gætu lært mikið af því starfi sem Dr. Maathai sinnti í Kenýa. Hún sagði eins og Ómar, að þegar mörg lítil sandkorn koma saman getur myndast óstöðvandi bylgja. Þannig getur fólk haft áhrif, til dæmis með því að kjósa gegn umhverfisspjöllum og eyðileggingu náttúruauðlinda.
Ég bendi áhugasömum á vefsíðu samtaka Dr. Maathai sem nefnist Green Belt Movement - www.greenbeltmovement.org
Einnig hvet ég fólk til að kynna sér ævisögu þessarar merkiskonu, sem nefnist Unbowed.
Meginflokkur: Bækur | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Lífstíll | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.