Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Fjallið mitt, jarðhiti og gróður-nasisminn

BúrfellÉg heimsótti ættar-óðalið mitt um helgina og virti fyrir mér jörðina mína eins og hver annar stór-greifi.  Það eru sko ekki allir sem eiga þúsund hektara lands og heilt fjall í Grímsnesinu!  Wink   Jæja ok...ég á það nú kannski ekki alveg allt sjálfur...ennþá.  Maður má nú samt gorta sig aðeins og spila sig svoítið stærri en maður er, svona til gamans endrum og eins.

Búrfell (I) í Grímsnesi er staðurinn sem um ræðir, en þar stunduðu afi minn og amma sinn búskap.  Ég ber alltaf frekar sterkar tilfinningar til Búrfells og finnst ég eiga þar mínar rætur og uppruna, þrátt fyrir að ég hafi aldrei búið þar.  Móðir mín var alltaf stolt af landinu sínu og þarna undi hún sér best.  Hún hvílir nú ca. 20 metra frá eldhúsglugganum sínum, í kirkjugarðinum að Búrfelli.  Jörðin er raunar nú í eigu föður míns og móðursystur, en þau hafa hingað til staðist áhlaup "ríku auðmannanna úr Reykjavík" sem vilja ólmir kaupa upp allt land á Suðurlandi undir hrossabúgarða og "frístundabyggðir".  Ekki veit ég hvernig það endar allt saman... en á meðan landið er enn í okkar eigu, held ég áfram að gorta mig af því að eiga heilt fjall. Smile

BúrfellÞarna eigum við góða granna, því næsta jörð fyrir norðan er Efri-Brú, en þar rak Guðmundur nokkur Byrgið sitt í mis-mikilli sátt við Guð og menn.  Nú er svo víst búið að brenna allar veggjatítlur á Efri-Brú og mættur til sögunnar annar Guðmundur með hyskið sitt.  Hárfagur maður líkt og forverinn en ku vera jarðbundnari og minna fyrir sado-masokisma.LoL

Það má svo geta þess að uppi á Búrfellsfjalli er eldgígur og í honum stöðuvatn þar sem finna má stöku silung.  Þjóðsögur herma að göng séu á milli gígsins á Búrfellsfjalli og Kersins í Grímsnesi, og að þar búi nykur, en það er grár hestur sem hófarnir og eyrun snúa öfugt á.  Ef einhver fór á bak nykursins þá hljóp hann með viðkomandi að vatninu í Kerinu eða á Búrfelli og stakk sér til sunds og drekkti þeim sem á baki var.


Búrfellskirkja og hús ömmu minnar

 

 

 

 

 

 

 

 

........

Nesjavallavirkjun - Ég fór í skoðunarferð um jarðvarma-virkjunina á Nesjavöllum í gær og þótti mikið til koma.  Glæsileg mannvirki og stórkostlegt að sjá þessa mikilvægu og óþrjótandi auðlind beislaða til að skapa umhverfisvæna orku. 

Ég var að spjalla við einn prófessorinn minn um jarðvarma-orku í vor og hann var grænn af öfund út í Íslendinga og jafnframt reiður Bandarískum stjórnvöldum og orkugeiranum fyrir að hundsa möguleikann á nýtingu jarðvarma í Bandaríkjunum.  Til eru nokkur jarðvarma-orkuver í Bandaríkjunum, flest í Kalíforníu og í Klettafjöllunum, nálægt Yellowstone hverasvæðinu.  Jarðvarmaorkan sem beisluð er í Bandaríkjunum í dag skapar einungis 0.3% orkubúskapar Bandaríkjanna, en tilfellið er að ef fé yrði lagt í uppbyggingu á fleiri virkjunum væri hæglega hægt að hækka þá tölu uppí 10% á næstu 20 árum, eða um 70,000 MW.  Staðreyndin er nefnilega sú að það er til nóg af háhitasvæðum í Bandaríkjunum sem standa algerlega ónýtt.  Meðfylgjandi kort sýnir svæðin sem um ræðir (í rauðum lit), aðallega í vestur-ríkjunum og Klettafjöllunum.  Einnig er gríðarlegt háhita-svæði á hafsbotni í Mexíkóflóa undan ströndum Texas og Louisiana, þar sem þegar er verið að bora fyrir olíu og gasi.

US Geothermal mapEn Bush stjórnin, í allri sinni visku, hefur tekið þá ákvörðun að leitin að endurnýtanlegum orkugjöfum sé of dýr og óhagkvæm.  Langtíma-stefna Bandaríkjanna í orkumálum er sú að byggja fleiri kjarnorkuver, halda áfram að brenna kolum og jarðgasi, dæla upp olíu í Alaska og breyta matarkistu heimsins (maís-ökrum Miðvesturríkjanna) í Etanól-bruggverksmiðju. 

Ljósi punkturinn er þó sá, að einstaka fylki hafa sett sín eigin lög og markmið í orkumálum sem eru mun framsæknari og gáfulegri en það sem kemur frá Washington DC.  Fylkisþing Minnesota, hefur t.d. samþykkt lög þess efnis að stóru orkufyrirtækin, eins og XCel Energy, verði skyldug til að framleiða 30% af sinni orku sem það selur íbúum Minnesota, með endurnýtanlegum orkugjöfum (t.d. sólar-rafhlöðum, vindmillum, jarðvarma) fyrir árið 2020.

........

Gróður-nasismi

Ég skoðaði mig um á Þingvöllum um helgina og tók eftir því að búið var að rífa upp nokkur stór og gömul barrtré.  Við nánari eftirgrennslan var mér tjáð að til stæði að fella öll barrtré í þjóðgarðinum af því að þetta væru aðflutt og óíslensk tré.  Stefnan er víst sú að allt eigi að líta út eins og um landnám!  Sama gildir um alla þjóðgarða landsins, þar á að rífa upp alla lúpínu, barrtré, Alaska-ösp...allt sem er ekki nógu Íslenskt og þjóðlegt.

Hvaða andskotans framsóknar-rugludallar fundu uppá þessu?  Ég hélt að það væri nú ekki of mikið af trjám og gróðri á þessu landi þó menn færu nú ekki að rífa allt upp með rótum á stórum svæðum.  Endilega setjið svo bara nokkrar rolluskjátur á þetta í leiðinni og búiði til almennileg rofabörð...eitthvað nógu Íslenskt!  Rekiði svo alla helvítis útlendingana í burtu sem voga sér að tjalda í þessum heilögu Íslensku þjóðgörðum í skjóli birkihríslanna!  Varla er svoleiðis hyski velkomið þar enda aðflutt og óíslenskt og hlýtur þarafleiðandi að skemma útsýnið fyrir hreinræktuðum þjóðernissinnum.


Kommar á Stokkseyri

Roðinn í austri logar enn skært hjá sumum á Stokkseyri. LoL

Kommar á StokkseyriStokkseyringar eru alltaf svolítið spes, og þessi hafði tekið uppá því um daginn að flagga Sovéska fánanum við hún.  Ekki veit ég hvort viðkomandi gerði það af eldheitri byltingar-hugsjóninni einni saman eða hvort þetta sé bara húmoristi, en í hverju falli þá var þetta svolítið áhugaverð sjón og kannski bara skemmtilega viðeigandi! Joyful

How do you like Iceland?

icelandersÍ hvert skipti sem ég kem heim til Íslands tek ég eftir töluverðum breytingum.  Sumar breytingarnar eru til góðs á meðan aðrar þykja manni heldur miður.  Sumt er áberandi og óumflýjanlegt, litlu frændsystkinin halda áfram að stækka og dafna á meðan gamla fólkið eldist.  Nýjar byggingar rísa og gömul hús hverfa, nýtt hringtorg og mislæg gatnamót hér og þar. 

Samt er það kannski þjóðarsálin sem breytist mest.  Þjóðarsálin endurspeglast ákaflega vel í umferðinni og þar má vel merkja ríkjandi viðhorf og innræti borgaranna.  Frekja, yfirgangur, tillitsleysi, dónaskapur, stress, hraði, græðgi, eigingirni.  Allt eru þetta neikvæðir eiginleikar, en því miður er þetta það sem maður upplifir hvað sterkast í umferðinni. 

Allt eru þetta líka eiginleikar sem mig grunar að fólk beri með sér í síauknu mæli annarsstaðar en bara í umferðinni.  Maður mætir þessu viðmóti jafnt í verslunum sem og opinberum stofnunum.  Enginn brosir, býður þér góðan dag eða sýnir minnstu kurteisi.  Öll mannleg samskipti einkennast af hroka, stressi og þurrkuntuskap.  Ég viðurkenni að ég er kannski orðinn of vanur þessu "yfirborðskennda" Ameríska viðmóti sem mörgum íslendingum finnst kjánalegt, en ég held að þrátt fyrir allt komi það manni í betra skap.  Ef þú smælar framan í heiminn, smælar heimurinn framan í þig!

Ég fæ það á tilfinninguna að Íslendingar séu að verða óhamingjusamari en þeir voru þrátt fyrir aukna hagsæld.  Margur verður nefnilega af aurum api.  Mér finnst stundum eins og Íslendingar séu að reyna að apa upp allt það versta í fari Bandaríkjamanna og séu kannski komnir langt framúr Kananum hvað það varðar á sumum sviðum.  Óheflaður kapítalismi og græðgi ásamt algjöru skeytingaleysi um nágrannann og náttúruna. 

Ég vona að þessi þróun snúist við.


Sæti 8D

Þá er maður mættur heim á blessað skerið í langþráð sumarfrí.

Ég las að flugdólgur hafi verið handtekinn eftir komuna frá Minneapolis í fyrradag.  Vil bara taka það fram að ég kom í gærmorgun...so it ain´t me!  En hafi flugdólgurinn þurft að sitja í sæti 8D á leiðinni heim þá gæti ég svosem skilið gremju hans.

Ég var frekar seinn uppá flugvöll vegna óvenjuþungrar umferðar á I-94.  Ferðin tekur yfirleitt ca. klukkutíma og korter en tók í þetta skiptið tvo og hálfan tíma.  Ég grátbað innritunar-klerkinn um að setja mig ekki í miðjusæti, en ég átti eftir að sjá eftir því.  Fyrir utan miðjusæti var nefnilega bara eitt sæti laust...sæti 8D.

Það er fátt leiðinlegra og óþægilegra en 6 tíma flugferð með Icelandair, svona to begin with.  Boeing 757-200 þotur eru almennt þröngar og óvistvænar (þær voru kúl árið 1989 þegar þær tóku við af áttunum) og er TF-FIP, Leifur Eiríksson, þar engin undantekning.  Sæti 8D er staðsett við ganginn rétt framan við aðalútganginn.  Hvað er líka fyrir framan aðalútganginn?  Jú mikið rétt, salernið!  Góðu fréttirnar voru þær að það var stutt að skreppa á klóið...bara að standa upp og taka eitt skref yfir ganginn...ca. einn meter.  Slæmu fréttirnar voru þær að eftir sex tíma var lyktin farin að vera óbærileg og umgangurinn var orðinn frekar pirrandi.  Þegar röðin myndaðist við salernið fyrir lendingu varð maður fyrir stanslausum áresktrum, fólk settist í tvígang ofan á mig til að hleypa öðru fólki framhjá og flugfreyjan rúllaði matarvagninum í öxlina á mér og gaf mér stærðarinnar marblett. 

Fólk var svo ekkert að hafa fyrir því að loka hurðinni á salerninu eftir notkun svo það hlutverk lenti á mér, svona til að sleppa við verstu lyktina rétt á meðan.

Ég hélt að flugfreyjan væri að grínast þegar hún rétti mér svo matarbakka, eins og einhver hefði matarlyst sitjandi nánast inná salerni.  Í boði voru hrísgrjón og einhverjar bollur í sojasósu.  Ég gat ekki greint hvað var í bollunum, hvort þetta væri kjöt, kjúklingur eða fiskur.

Í þessari sætaröð er svo enginn gluggi og maður er nógu nálægt Saga Class til að finna lyktina af hráa hreindýrakjötinu sem fína fólkið fær í forrétt (sem í bland við lyktina frá salerninu veldur léttri klígju).

Öskrandi smábarn og sí-hóstandi kona fyrir aftan mig var svo til að fullkomna ferðina.  Ég býst fastlega við að leggjast í rúmið eftir svona 3-4 daga. Pinch

I want my money back! 


Michael Moore og the Sodomobile

Snillingurinn hann Michael Moore lét hafa það eftir sér í nýlegu viðtali í The Advocate að næsta mynd hans verði hugsanlega um réttindi samkynhneigðra og hómófóbíu í Bandaríkjunum.

Moore hefur reyndar fjallað um málið áður, á sinn einstaklega skemmtilega hátt.  Grin  Endilega horfið á þessa klippu úr sjónvarpsseríunni The Awful Truth frá árinu 1998.  Ég grenjaði úr hlátri þegar ég sá þetta... vona svo sannarlega að Michael standi við stóru orðin og hefjist handa við nýju myndina sem fyrst!


Hot town, Summer in the City

Where's Waldo?Ég brá undir mig betri fætinum í dag og keyrði niður til Minneapolis og eyddi deginum í Uptown og við Lake Calhoun.  Uptown hverfið, sem er staðsett rétt fyrir sunnan downtown (go figure), er svona hálfgert "kúltúr" hjarta Minneapolis.  Hverfið minnir örlítið á Greenwich Village í NY, mikið um listafólk og bóhema, kaffihús, bókabúðir, veitingahús og skemmtistaði.  Meðal ungra listamanna sem hófu ferilinn í Uptown var sjálfur Prince, sem á eftir Bob Dylan er kannski frægasti sonur Minnesota.

Ég skellti mér í hið fornfræga Uptown Theater kvikmyndahús, sem var byggt árið 1916 og miðað við rifin sætin og myglufýluna virðist ekki miklu hafa verið eytt í endurbætur á húsinu síðan.  Þrátt fyrir það er gaman að koma þarna, enda einhver sjarmi og stemmning í húsinu sem erfitt er að skilgreina.  Þarna eru eingöngu sýndar "independent" myndir sem ekki fá mikla dreifingu í stóru megaplexunum og í dag var verið að sýna Sicko myndina hans Michael Moore, sem enn er ekki kominn í almenna dreifingu.  Þetta, ásamt Lagoon bíóinu hinum megin við götuna eru einu bíóin sem sýna myndina í Minnestoa enn sem komið er.  Ég man reyndar eftir því að sama var upp á teningum með Farenheit 9/11 og meira að segja Brokeback Mountain.  Þær myndir voru ekki sýndar uppí St. Cloud fyrr en eftir dúk og disk og ég gerði mér far niðurí Uptown til þess að sjá þær með öllu hinu "líberal pakkinu".

Uptown TheaterMichael Moore brást ekki bogalistin með Sicko, sem er mynd sem allir verða að sjá.  Hún er virkilega sorgleg á köflum, en Moore tekst þó að halda uppi húmornum eins og honum er einum lagið.  Ég nenni ekki að tjá mig mikið um heilbrigðiskerfið hérna í Ameríkunni í þessari færslu...en djöfull er það rotið...eins og svo margt annað í þessu þjóðfélagi...sem samt á líka sínar góðu hliðar auðvitað!

Eftir Sicko var haldið á Famous Dave´s BBQ and Blues búlluna í Calhoun Square.  Þar var auðvitað étið á sig gat af svínarifjum og öllu tilheyrandi og hlustað á blús í leiðinni.

 

Lake Calhoun - Minneapolis skylineÞvínæst var kíkt niður að Lake of the Isles og Lake Calhoun og notið verðurblíðunnar.  Það er alltaf unun að fylgjast með fallega fólkinu með fullkomnu magavöðvana skokka og hjóla með smáhundana sína meðfram vatninu.  Það er auðvelt að missa sig í dagdraumum um hið ljúfa líf...eignast eina af þessum milljón dollara lakefront villum og Jagúarinn í innkeyrslunni.  Ekki væri verra ef báturinn og einn af þessum "stud muffins" með magavöðvana fylgdi með í kaupunum!  GetLost  Keep on dreamin´ boy.

My car - Not my house

 

 

Áður en maður kom sér heim í sveitina var svo komið við í Whole Foods Market og spurt um íslenskt lambakjét.  Þar var mér tjáð að þeir fengju bara eina sendingu á ári og sú næsta kæmi í byrjun nóvember.  Hann ráðlagði mér hins vegar að hringja um miðjan október og láta taka frá fyrir mig, því kjötið entist venjulega ekki út vikuna!  Það var heldur ekkert íslenskt skyr eða súkkulaði til, það fæst eingöngu á austurströndinni enn sem komið er, en ég keypti að gamni rándýra flösku af íslensku vatni.

Ég hefði kannski betur sleppt því, en ég fæ nóg af ókeypis íslensku kranavatni á mánudaginn!  Jamm...hætti við að fara á Oshkosh flugsýninguna í Wisconsin og er á leiðinni á klakann í sumarfrí. W00t


Titill þessarar færslu er annars tilvísun í þetta ágæta lag frá 1966 með The Lovin´Spoonful. Cool


Ewan McGregor og franska hornið

Áður en hann varð Obi-Wan Kenobi var hann skoskur lúðrasveitar-nörd!  Þetta er náttúrulega skelfileg afbökun á horn-konsert Mozarts...en ég get reyndar vottað það af eigin reynslu að þetta er ekki auðveldasta verkið til að spila vel og sennilega var ég lítið skárri hornleikari þegar ég var 16 ára.


Enn eitt fórnarlamb klukkunnar-faraldursins!

Það fór ekki svo að maður slyppi við þetta skaðræðis-klukk sem tröllriðið hefur bloggheimum síðustu daga eins og versti keðjubréfa-vírus.  Thanks a lot Margrét!

En hvað getur maður gert annað en tekið þátt í vitleysunni til að forðast að verða jinxaður.  Þetta gengur víst út á að uppljóstra 8 hlutum um sjálfan sig og klukka svo 8 aðra óklukkaða bloggara.  Mjög frumlegt!

Ok...here goes...

1.  Þegar ég var 5 ára var Bubbi Morthens í miklu uppáhaldi hjá mér, en það átti eftir að koma mér í koll því það leiddi til þess að ég var rekinn heim af Gæsló fyrir að taka mér stöðu uppá rennibrautinni og syngja hástöfum "Stórir strákar fá raflost" og "Ekki benda á mig" sem ég kunni orðið utanað.  Enn þann dag í dag skil ég ekki af hverju ég var rekinn heim fyrir þetta tónleikahald en sennilega hefur fóstrunni ekki þótt textarnir við hæfi á róluvellinum.  Þetta atvik hefur þó sennilega haft einhver bælandi sálræn áhrif á mig því uppfrá þessu varð ég ákaflega feiminn og óframfærinn krakki og var aldrei rekinn úr tíma í skóla eftir þetta og aldrei sendur til skólastjórans fyrir prakkarastrik.  Ég var beygður og kúgaður undir ægivald yfirvaldsins nógu snemma og hef aldrei fílað Bubba síðan! Grin  Þetta var örugglega svona "defining moment" sem eftir mörg sálfræðiviðtöl og dáleiðslur uppgötvast að gerðu mann eins og maður er!

2.  Ég var einu sinni skráður í Framsóknarflokkinn! Blush  Á mínu fyrsta ári í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi kynntist ég ungum og harðpólitískum sveitalubba úr Rangárvallasýslunni.  Ég var alveg ópólitískur á þessum árum en hafði alltaf haft svolítið gaman af Denna Hermanns...ég verð að segja það.  Ég var ungur, vitlaus og áhrifagjarn og lét til leiðast að skrá mig í flokkinn og kjósa í einhverju prófkjöri...bara til að geta verið vinur þessa drengs, sem svo talaði ekki meira við mig eftir að hann var búinn að "nota mig" í prófkjörið.  Síðan hef ég ekki getað treyst framsóknarmönnum! GetLost  Ég hafði reyndar lúmskt gaman af því að stríða ömmu minni með þessu en hún var gallhörð Sjálfstæðis-kona og þótti þetta uppátæki mitt skelfilegt.

3.  Ég varð Íslenskur ríkisborgari í ágúst árið 1996 og hlýt því að teljast nýbúi!?  Fyrir þann tíma var ég óafvitandi ríkisfangslaus, þrátt fyrir að eiga Íslenskt vegabréf, alíslenska móður og hafa verið fæddur og uppalinn á Íslandi.  Þetta skrítna kerfis-rugl kom til af því að afi gamli, Robert Jensen, fluttist til dönsku nýlendunnar Íslands fyrir stríð og hóf störf við Mjólkurbú Flóamanna.  Þar kynntist hann íslenskri stúlku og átti með henni börn og buru.  Pabbi fæddist áður en Íslendingar sviku Kónginn og lýstu yfir sjálfstæði og var þess vegna kallaður "fullveldis-dani".  Merkilegt nokk erfðist þetta svo til mín, þrátt fyrir að móðir mín hafi verið alíslensk og pabbi ekki nema hálfur dani, fæddur á Íslandi.
Ég vissi ekki af því fyrr en að ég ætlaði að kjósa í fyrsta skipti að ég var ekki á kjörskrá.  Ég kaus nú samt utankjörstaðar og lét kæra inn atkvæðið mitt en vissi aldrei hvað varð úr því.  Nokkrum mánuðum síðar sótti ég um að endurnýja vegabréfið mitt (sem Sýslumaðurinn á Selfossi hafði gefið út vandkvæðalaust mörgum árum áður).  Þá fékk ég tilkynningu um það að samkvæmt þjóðskrá væri ég danskur ríkisborgari.  Danska sendiráðið vildi hins vegar ekkert kannast við mig og því var ég í raun ríkisfangslaus.  Þó mér væri það eiginlega þvert um geð, neyddist ég til þess að sækja náðursamlegast um íslenkst ríkisfang og fékk það daginn eftir og á sérstakt vottorð um það undirskrifað af þáverandi dómsmálaráðherra Þorsteini Pálssyni.  Ég held reyndar meira uppá kvittunina, sem á stendur: 1 stk. íslenzkur ríkisborgararéttur - kr. 1,600.  LoL  Spottprís if you ask me!

4.  Fékk ólæknandi áhuga á NBA körfuboltanum eftir að hafa fylgst með úrlsitakeppninni árið 1991 þegar Magic Johnson og LA Lakers kepptu við Michel Jordan og Chicago Bulls.  Ég hélt með Lakers og var harður Lakers aðdáandi þangað til ég fluttist til Oklahoma og gerði mér nokkrar ferðir suður til Dallas til að horfa á Mavericks spila.  Mavericks leikjunum var líka öllum sjónvarpað á kaplinum í Tulsa þannig að ég fór að fylgjast með þeim og sagði skilið við Lakers.  Svo þegar ég kom hingað til Minnesota þá fór ég að leggja ferðir mínar í Target Center og uppgötvaði Kevin Garnett.  Það má því kannski segja að maður sé kominn hringinn því Lakers liðið var upphaflega héðan frá Minnesota, en var keypt til Los Angeles árið 1960.

5.  Þegar ég var krakki og unglingur hafði ég óeðlilegan áhuga á hernaði og drápstólum.  Ég safnaði öllu sem ég gat sem tengdist herþotum, flugmóðurskipum (Top Gun var eitt sinn uppáhaldsmyndin mín...og ekki bara útaf Tom Cruise), kafbátum og las allt sem ég náði í eftir Tom Clancy.  Ég fílaði kalda stríðið í botn og hélt með George Bush eldri á móti Michael Dukakis í forsetakosningunum 1988 (þegar ég var 11 ára) af því að Dukakis ætlaði að skera niður til hernaðarútláta! Shocking 

6.  Þegar ég fluttist til Bandaríkjanna árið 2000 leist mér ágætlega á fylkisstjórann í Texas og forsetaframbjóðandann George W. Bush og Repúblikana almennt.  Ég var saklaus og trúði engu slæmu uppá kristna Ameríkana!  Þetta voru jú the good guys...ekki satt?

7.  Ég eltist og þroskaðist...uppgötvaði smám saman "sannleikann" um lífið og tilveruna og heimsmynd mín umturnaðist.  Breyttist úr frekar íhaldssömum og húmorsnauðum plebba sem hlustaði eingöngu á klassíska tónlist og leit niður á hippa og homma...yfir í ofurfrjálslyndan húmanista, trúleysingja og krata sem lærði að hlusta á rapp og reykja gras (og hætta því). - Og til að kóróna allt saman kom ég svo loksins útúr skápnum í leiðinni og losnaði úr viðjum sjálfshaturs og stöku sjálfsmorðshugleiðinga. Smile

8.  Vokenni elskulegum bróður mínum sem hefur ekki talað við mig síðan...sem og öllum þeim sem hafa ekki áttað sig á því að lífið er of stutt og dýrmætt til þess að lifa því ekki lifandi í sátt við sjálfan sig og aðra.  Mitt mottó er að Það er skylda okkar að vinna stöðugt í því að bæta okkur og ná fram því besta sem í okkur býr.  Eða eins og gamla recruiting-slóganið hjá Ameríska hernum var:  "Be all you can be!"

Yikes...þetta hlýtur að vera orðið með þeim lengri og svæsnari klukkunum.  Þarf svo að finna 8 óklukkuð skotmörk...best að sofa á því.


Sú kemur tíð

Il était une fois l'Espace - Mér til mikillar gleði rakst ég á þetta myndbrot úr þessari frábæru frönsku teiknimyndaseríu frá árinu 1982. 

 

Þetta framkallar ljúfar bernskuminningar, en þessir þættir voru uppáhalds-sjónvarpsefnið mitt á þessum árum, ásamt Prúðuleikurunum, Nýjustu tækni og vísindum með Sigurði H. Richter, kúrekamyndum með John Wayne og Dallas sem ég horfði alltaf á með ömmu minni. (hef svo komið 5 sinnum á Southfork í Texas Tounge)

Ævintýri Pésa og Fróða, þýdd og leiklesin af Guðna Kolbeinssyni, voru langt á undan sinni samtíð.  Þetta voru einhversskonar evprópskir Star Trek þættir fyrir börn og ég held að þeir hafi spilað stóra rullu í að gera mann að "geim-nörd" fyrir lífstíð.

Eitt það æðislegasta við þessa þætti var tónlistin, en hún var samin af Óskarsverðlaunahafanum Michel Legrand.  Yndislega dramatísk og hýr diskó-tónlist LoL


Sumarið er tíminn

Þá er seinna sumar-workshoppinu lokið og ég á núna að kunna að hanna eitt og annað í þrívíddar-CAD-forritinu Pro/Engineer Wildfire 3.  Öflugt forrit en eftir að hafa setið yfir því frá 9-4 síðustu tvær vikurnar í illa loftræstri skólastofu með létt-geggjuðum prófessor geri ég ekki ráð fyrir að snerta það aftur alveg á næstunni.  Og ég vil ekki heyra meira um útreikninga á kúlulegum, gormum og skrúfugöngum það sem eftir er!  Pinch

En en...nú er loksins komið að því að kíkja heim til Íslands, hvíla mig á Könunum og hlaða batteríin á sálartetrinu.  Geri ráð fyrir því að mæta á skerið í lok næstu viku (ef blessunin hún Jen hjá Icelandair í Baltimore getur breytt restrictaða farmiðanum mínum á mánudaginn) og verð sennilega fram í miðjan ágúst. 

Þjóðvegur 1Ég vonast til að geta ferðast eitthvað um landið í sumar.  Ég hálf skammast mín fyrir að viðurkenna það að þrátt fyrir að hafa um daganna ferðast til 18 landa og 38 af 50 fylkjum Bandaríkjanna þá hef ég aldrei á ævinni komið á Vestfirðina og á Akureyri hef ég ekki komið síðan ég var 12 ára! Blush  Þá fór fjölskyldan hringinn með hjólhýsi í eftirdragi og allir fengu nóg af þvottabretta-malarvegum og þjóðvegasjoppum. 

Pabbi gamli harðneitaði svo að fara í fleiri ferðalög innanlands og bauð fjölskyldunni uppá flug og bíl til Lúxemborgar í staðinn á hverju ári í fjöldamörg ár.  As a result man maður nú eftir hverju krummaskuði í Saar- og Móseldalnum en þekkir ekki muninn á Eyjafirði og Eskifirði! 

Ég verð alltaf svakalega hneykslaður þegar ég tala við lókal fólk hérna sem hefur aldrei komið út fyrir sín eigin fylkjamörk...eins og það er nú gaman og auðvelt að keyra um Ameríska þjóðvegi (ólíkt þeim íslensku).  En margir segjast bara ekkert hafa að sækja í næsta fylki...hvað þá til útlanda!  Reyndar þótti mér botninn alveg taka úr þegar fullorðin manneskja suður í Oklahoma spurði mig hvað ég væri lengi að keyra upp til Íslands!

Heimskt eru heimaalið barn, hugsa ég með mér...þangað til að ég uppgötva að mér þótti ég ekki hafa neitt að sækja á Akureyri, fyrst ég gat étið Akureyring (með frönskunum á milli) á Skalla í Reykjavík! Wink

Vonandi er búið að malbika þarna norðureftir!

Ég geri ekki ráð fyrir því að vera aktívur í blogginu næstu vikurnar en vonast þess í stað eftir að hitta á sem flest af ykkur í raunheimum. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.